Heildarkostnaður Hveragerðisbæjar við snjómokstur í desember síðastliðnum var tæpar 14 milljónir króna.
Þetta kom fram á fundi bæjarráðs fyrr í mánuðinum þar sem Friðrik Sigurbjörnsson, fulltrúi D-listans, lagði fram fyrirspurn um kostnað í desember og janúar. Tölurnar fyrir janúarmánuð lágu ekki fyrir þar sem ekki höfðu allir reikningar borist.
Á „venjulegum“ moksturdögum voru 5-6 vélar í gangi, þrjár frá Hveragerðisbæ og 2-3 frá verktökum. Þegar opna þarf allar stofngötur bæjarins á skömmum tíma hafa hins vegar 8-9 vélar fraið af stað og alls komu þrettán vélar í heildina að mokstri í desember, þrjár frá sveitarfélaginu og tíu frá verktökum.
Kostnaðurinn skiptist þannig að tæplega 12,2 milljónir króna voru greiddar til verktaka vegna vinnu í desember en kostnaður áhaldahússins var tæplega 1,8 milljón króna.