Veiði í Ytri-Rangá hófst með látum í morgun en á hádegi voru sex laxar komnir á land.
Stærsta laxinn í morgun veiddi Róbert Ómarsson á Hellu við Gunnugilsbreiðu, 14 punda og 86 sm hæng. Þetta er Maríulax Róberts sem beitti toby á silungastöng og var góðar 40 mínútur að landa fiskinum.
Róbert slapp vel því laxinn var örmerktur og því búið að klippa af honum veiðiuggan. Ekki kom því til þess að Róbert þyrfti að bíta uggann af.
Veiði hófst kl. 7 í morgun og hálftíma síðar hafði Viðar Steinarsson á Kaldbak landað þeim fyrsta, þriggja punda hæng.
Fjórtán stangir eru í ánni í dag en auk laxanna sex lönduðu veiðimennirnir tólf urriðum og einni bleikju. Urriðarnir voru frá tveimur og upp í tæp fjögur pund.
Sumarið 2008 sló Ytri-Rangá öll met en þá veiddust 14.315 laxar í ánni. Í fyrrasumar komur 10.719 laxar á land og gætir mikillar bjartsýni hjá veiðiréttarhöfum fyrir komandi sumar. Þar binda menn vonir við að metið frá 2008 verði slegið.
Viði hófst einnig í Hólsá í morgun og þar hafði einn urriði komið á land fyrir hádegi. Mikið var af sel í ósi árinnar í morgun sem gerði veiðimönnum lífið leitt.