Afkomendur Hallgríms Guðmundssonar Bachmans frá Brekku í Biskupstungum og Þóreyjar Ingimundardóttur frá Efri-Reykjum halda ættarmót dagana 9. til 11. ágúst næstkomandi á Flúðum. Þátttakendur verða tæplega hundrað þar af 40 erlendir, ættaðir frá Kanada.
Þetta er annað ættarmótið sem haldið er þeim hjónum til heiðurs. Hið fyrra var haldið í Selkirk í Manitoba árið 2015.
Liðin eru 131 ár frá því þau hjón fluttust af landi brott til Ameríku með þrjú ung börn, það yngsta á fyrsta ári. Eftir skildu þau fjögur börn frá fjögurra til fjórtán ára með því fororði að þeim yrði síðar sendur farareyrir.
Elsta barnið Helga Margrét sem lengst af var í fóstri á Brekku fluttist vestur um haf fjórum árum síðar. Bræðrunum þremur sem eftir urðu í Tungum vegnaði misvel. Elsti sonurinn, Ingimundur, giftist og var sá eini þeirra sem eignaðist afkomendur. Ingimundur vann sem sjómaður, verkamaður og bóndi í Litlahvammi, Reykjavík. Þorgrímur lést ókvæntur rúmlega tvítugur. Síðast var hann vinnumaður hjá héraðslækninum á Kópsvatni og síðar Skálholti. Kristján Bachman, myndasmiðslærlingur á Ísafirði, lést úr taugaveiki aðeins 18 ára gamall.
Eftir mikla hrakninga, missi tveggja barna í Bandaríkjunum og búferlaflutninga til Kanada virtist sem Hallgrími og Þóreyju vegnaði loksins vel í Vesturheimi. Þórey var lærð ljósmóðir og sóttust konur úr héruðunum í kringum Selkirk, Manitoba, eftir þjónustu hennar. Aðeins 45 ára gömul veiktist Þórey hastarlega og lést. Clara, yngsta barnið, var tekin í fóstur af vinafólki sem ól hana upp sem dóttur sína.
Hallgrímur hélt áfram heimili í Selkirk með hjálp elstu dætra sinna, hafði um tíma kostgangara og ráðskonu, en 10 árum síðar var hann allur.
Þrjú barna Hallgríms og Þóreyjar af fjórum sem fædd voru í Ameríku eignuðust afkomendur: Jenny Tallman sem bjó lengst af í Saskatchewan, Skúli Bachman í Winnipeg og Clara Henrikson frá Selkirk.