Fjörutíu stöðvaðir vegna hraðaksturs

Lögreglan að störfum. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Lögreglan á Suðurlandi kærði 40 ökumenn fyrir að aka of hratt í liðinni viku.

Helmingur þeirra voru mældir á þjóðvegi 1 við Vík og Klaustur, einn á Mýrum vestan Hafnar, sjö í Rangarþingi og Ásahreppi og tólf vestan Þjórsár.

Einn þessara ökumanna var á 50 km/klst kafla innanbæjar á Hvolsvelli og þrír á 50 km/klst kafla í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Einum þessara þriggja var gert að hætta akstri en í honum mældist áfengi þó svo að það væri „undir kærumörkum“.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að tveir ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum ölvaðir. Annar var á ferðinni á Suðurlandsvegi austan við Selfoss en hinn innanbæjar á Hellu. Beðið er niðurstöðu úr rannsókn blóðsýna og fara málin áfram til ákærusviðs þegar þær berast.

Fyrri greinSextíu mínútur í auka hreyfingu á viku
Næsta greinÞrjár athugasemdir vegna stórra ökutækja