Björgunarsveitir í Hveragerði, Þorlákshöfn, á Hvolsvelli, Flúðum og Selfossi hafa verið kallaðar út í morgun vegna óveðursins sem gengur yfir landið.
Verkefnin hafa verið af ýmsu tagi en mikið er um að þakplötur losni og fjúki. Einnig hafa girðingar, stillansar, gervihnattadiskar, skilti, gróðurhús og vinnuskúrar verið á ferðinni. Þá hafa svalahurðir og gluggar fokið upp og hafa húsráðendur þurft aðstoð við að loka þeim.
Landsbjörg vill minna á að fjúkandi hlutir geta skapað mikla hættu fyrir vegfarendur og í þessu óveðri eru a.m.k. tvö tilvik þar sem hlutir fuku á glugga í heimahúsum og brutu þá.