Vatnshæð í ám og lækjum á Suðurlandi hækkaði töluvert eftir mikla úrkomu og leysingar í gær.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni náðu minni árnar hámarki í nótt og er farið að lækka í þeim aftur.
Mikið rennsli mælist enn í Hvítá en búist er við því að það minnki í lok dags. Enn eru ísstíflur í Hvítá á Suðurlandi og flæðir yfir árbakka að orlofshúsum í Vaðnesi.
Ölfusá er vatnsmikil og hefur rennsli hennar aukist stöðugt frá því á miðnætti í fyrrinótt. Á hádegi var rennsli í Ölfusá við Selfoss rúmelga 1.030 m3 / sek, en venjulegt meðalrennsli í ánni er um 370 m3/sek.