„Félagið Villikettir var stofnað snemma árs 2014 með það að markmiði að standa vörð um dýravernd fyrir villta ketti á Íslandi. Suðurlandsdeildin var stofnuð í mars 2017 og er knúin af sjálfsprottnum áhuga nokkurra einstaklinga á Suðurlandi á að taka þátt í þessu mikilvæga starfi og vera partur af starfsemi Villikatta, sem er á landsvísu,“ segir Ása Nanna Mikkelsen, ein af stjórnarkonum Villikatta Suðurlandi, í samtali við sunnlenska.is.
Á Suðurlandi eru virkir sjálfboðaliðar á bilinu þrjátíu til fjörutíu og starfið eingöngu byggt á sjálfboðavinnu.
Markmiðið að fækka villiköttum á mannúðlegan hátt
„Markmið félagsins er að hlúa að villi- og vergangsköttum á Íslandi og fækka þeim á mannúðlegan hátt með því að Fanga-Gelda-Skila (TNR), sem er alþjóðleg aðferð sem miðar að því að fækka villiköttum á mannúðlegan hátt án þess að aflífa þá. Þessu fylgir það viðamikla verkefni að bjarga öllum kisum sem finnast úti, bæði villi- og vergangskisum, manna litla kettlinga og finna þeim síðan heimili, hjúkra veikum kisum, koma þeim til læknis og hlúa að þeim,“ segir Ása.
Ása segir að allar kisur sem ná að þýðast manninum fari í heimilisleit en þær sem ekki er hægt að manna er skilað aftur á sinn stað og gætt að því að þær hafi aðgang að mat og skjóli á sínum heimaslóðum.
Draumurinn að eignast betri aðstöðu fyrir kisurnar
„Lengst af hefur starfsemin byggst á því að sjálfboðaliðar leggja heimili sín undir aðhlynningu kisanna. Þannig hafa mjög margar kisur t.d. farið í gegnum Ormakot í Grímsnesi, þar sem unnið hefur verið sleitulaust að umönnun og mönnun. Í lok ársins 2018 náðum við samningi við Hveragerði sem lánaði okkur gamalt hús í Hveragerði, sem við köllum Hverakot. Hverakot þarfnast mikilla endurbóta en þar höfum við reynt að gera heimilislega aðstöðu fyrir kisur í mönnun,“ segir Ása.
Í lok ársins 2020 fékk félagið svo afnot af gámi á vegum Sveitarfélagsins Árborgar. „Þar sem pláss er fyrir fjóra búrketti og köllum við það Loppukot. Draumurinn er að eignast stærri og betri aðstöðu fyrir kisurnar, því þörfin er afar brýn.“
„Reksturinn byggist á frjálsum fjárframlögum, félagsgjöldum og framlagi sjálfboðaliða sem leggja til vinnu, heimili sín og bíla. Við treystum á almenning til hjálpar og eru margir sem gefa okkur mat og annað smálegt sem þarf. Og við leitum eftir samstarfi við sveitarfélög á Suðurlandi til hjálpar dýrum í neyð.
97 kisur fengu varanlegt heimili á síðasta ári
Ása segir að það hafi gengið mjög vel að finna heimili fyrir þær kisur sem eru tilbúnar í slíkt. „Á árinu 2020 fundum við heimili fyrir 97 kisur, auk þess sem nokkrar kisur á okkar vegum fengu heimili í gegnum aðrar deildir Villikatta. Af þeim 133 kisum sem við önnuðumst á árinu 2020 var einungis 11 skilað aftur út á sinn stað. Það voru kisur sem ekki vildu vera háðar mönnum en voru búnar að fá alla læknishjálp og geldingu. Þeim kisum er gefið úti og hafa skjól.“
Aðspurð segir Ása að það megi segja að það hafi verið meiri áhugi á að fá sér gæludýr á síðastliðnu ári en áður. „Það voru fleiri heimavið og fleiri að átta sig á hvað dýr eru mikilvæg manninum, svona þegar um hægist og fólk er meira heimavið.“
Aukin vakning um velferð dýra
„Það sem okkur finnst standa uppúr á árinu 2020 er aukin meðvitund í samfélaginu á málefnum tengdum dýravernd. Skilningur fólks og velvild í garð starfsemi Villikatta er stigvaxandi, við finnum það. Svo veitum við því athygli, og veldur áhyggjum, hve margar kisur týnast í sumarhúsaferðum fólks. Og almennt að kisur eru að týnast of mikið frá heimilum sínum. Ógeldar kisur sem lenda þannig á vergangi gjóta á ótrúlegustu stöðum og kettlingar sem fæðast úti verða að villiköttum, ef ekki næst að grípa inní. Og villiköttum getur fjölgað á ógnarhraða á þessum svæðum nema tekið sé á málum. Sama má segja um ótal kisur í útihúsum í kringum sveitabæi, þar er mikið verk óunnið,“ segir Ása.
Mesta álagið á vorin
„Á árinu 2018 var heildarfjöldinn 111 kettir, árið 2019 voru þeir 120 og árið 2020 voru þeir 133. Mesta álagið er yfirleitt á vorin og sumrin þegar kettlingarnir eru að fæðast og virðist bara aldrei verða lát á. Nú er árið 2021 rétt nýbyrjað og strax komnir 16 nýir kettir í okkar hendur.“
En hvaða ráð hefur Ása fyrir það sem hafa hug á að fá sér kettling eða kött? „Aðalatriðið er að gefa þeim alla ást sína. Dýr eru lifandi verur, ekki leikföng. Kettlingar verða fullorðnir fljótt og eldri kisur þurfa líka heimili og öryggi. Kisur eiga að vera geldar, örmerktar, bólusettar og ormahreinsaðar og gæta þess að vera með leyfi frá sveitarfélagi og skrá kisurnar eftir reglum. Gæta að öryggismálum eins og gluggum, hafa kisurnar inni á kvöldin og yfir nóttina, ef þær eru á annað borð útikisur.“
Mikilvægt að vera vakandi yfir velferð dýra
„Verum góð við dýrin okkar – þau launa það margfalt. Verum líka vakandi yfir dýrum í neyð, látum okkur velferð þeirra varða. Látið okkur vita ef þið verðið vör við misbresti, sjáið dýr í neyð eða vitið af villikattasamfélagi sem takast þarf á við,“ segir Ása að lokum.