Fleiri sveitarfélög í Árnessýslu hafa boðað til íbúakönnunar um sameiningu sveitarfélaga eftir að Hveragerðisbær kynnti áform sín um slíka kosningu á dögunum.
Þannig munu íbúar í Hrunamannahreppi, Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Flóahreppi framkvæma samskonar könnun.
Hvergerðingar samþykktu að samhliða sveitarstjórnarkosningunum í lok maí verði íbúar spurðir um afstöðu þeirra til sameiningar við önnur sveitarfélög. Vilji kjósandi að Hveragerði sameinist öðru sveitarfélagi verða gefnir þrír eða fjórir kostir um sameiningu sem kjósandinn getur valið um. Könnunin verður ráðgefandi fyrir sveitarstjórn.
Hveragerðisbær sendi öðrum sveitarfélögum í Árnessýslu bréf þar sem þessi áform voru kynnt og nú hafa þrjú fyrrgreind sveitarfélög samþykkt að boða til íbúakönnunar samhliða sveitarstjórnarkosningunum.