Flest hraðakstursbrotin í Rangárvallasýslu

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi kærði 28 ökumenn í liðinni viku fyrir að aka of hratt í umdæminu. Sá sem hraðast ók var á 136 km/klst hraða á Biskupstungnabraut.

Þar er hámarkshraði 90 km/klst, en maðurinn, sem var stöðvaður um klukkan fjögur aðfaranótt sunnudags er að auki grunaður um ölvun við akstur.

Þrettán þeirra sem lögreglan stöðvaði í síðustu viku voru í Rangárvallasýslu, fimm í Árnessýslu, fjórir í Vestur-Skaftafellssýslu og sex í Austur-Skaftafellssýslu.

Tekinn próflaus í þriðja sinn
Ökumaður sem stöðvaður var í Þorlákshöfn á föstudagskvöld er grunaður um að hafa verið að aka bifreið sinni undir áhrifum fíkniefna.

Annar, sem stöðvaður var í Hveragerði sama dag, reyndist vera að aka þrátt fyrir að hafa verið sviptur ökuréttindum. Hann hefur nú í þrígang verið stöðvaður við þessa iðju sína og lýkur væntanlega máli sínu með greiðslu sektar sem hækkar jafnt og þétt við hverja ítrekun brots. Að endingu tekur við fangelsisdómur og auk þess er skylt að gera bifreið viðkomandi upptæka til ríkissjóðs vegna ítrekaðs aksturs sviptur ökurétti.

Fyrri greinStolinn sendibíll fannst í Reykjavík
Næsta greinPachu kveður Selfoss