Heilsufrömuðurinn og jógakennarinn Anna Guðný Torfadóttir frá Þorlákshöfn er mikill reynslubolti þegar kemur að andlegri og líkamlegri heilsu.
Hún hefur um árabil haldið úti heilsublogginu Heilsa og vellíðan þar sem hún deilir gómsætum og hollum uppskriftum sem næra og gleðja frumur líkamans. Síðastliðin ár hefur hún einnig verið með netnámskeið þar sem hún hjálpar fólki að ná betri heilsu. Sjálf þekkir hún það af eigin raun hvernig það er að líða ekki nógu vel og endurheimta heilsuna með breyttu mataræði.
„Ég var að gefa nýverið út mitt þriðja netnámskeið á myndbandaformi sem heitir Hollt gert einfalt. En mig hefur lengi langað að gera þetta námskeið og er svo glöð að hafa loksins náð að framkvæma þetta. Á námskeiðinu kenni ég fólki í nútímahraða lífsins að næra sig á næringarríkan, einfaldan og girnilegan máta,“ segir Anna Guðný í samtali við sunnlenska.is.
Fallegasta form sjálfsástar
Við kaup á námskeiðinu fær fólk ótímabundinn aðgang að lokuðu vefsvæði þar sem finna má uppskriftarmyndbönd fyrir allar máltíðir dagsins ásamt fræðslumyndböndum um hvernig má koma hollri fæðu inn í lífsstílinn á auðveldan hátt. „Námskeiðið er ekki tileinkað einhverju ákveðnu mataræði – þó allar uppskriftirnar séu plöntumiðaðar, ásamt því að vera lausar við glúten og unna sætu. Þetta snýst aðallega um að fræða fólk og hvetja til að prufa sig áfram í heilsubætandi matargerð á sínum hraða og finna fyrir áhrifunum sem fylgir því. Að bæta inn meira af þessu holla, í staðin fyrir að einblína á að taka eitthvað út og fara í einhverja megrun.“
„Á námskeiðinu kem ég einnig með fræðslu um hvernig við getum gert holla fæðu meira spennandi fyrir krakka og hvernig við fullorðna fólkið getum séð til þess að vera vel nærð í gegnum amstur dagsins. Þetta námskeið er því fyrir alla þá sem vilja finna fyrir meiri orku, lífsgleði, vellíðan og hugsa betur um heilsuna sína. Það að huga að hollu mataræði er að mínu mati eitt af því áhrifaríkasta sem við getum gert til þess að minnka líkur á lífsstílstengdum sjúkdómum og auka andlega og líkamlega vellíðan. Þetta er eitt fallegasta form sjálfsástar, að næra sig á hollan og girnilegan máta.“
Fann sjálf gígantískan mun
Anna Guðný þekkir það af eigin raun hvernig hreint mataræði bætir heilsuna. „Eftir að ég fann sjálf gígantískan mun á heilsu minni og vellíðan við það að tileinka mér hreint mataræði fyrir góðum tíu árum síðan þá hef ég haft mikla ástríðu fyrir því að hjálpa fólki að upplifa áhrifin sem fylgja því að koma inn meira af hollum valkostum í mataræðið.“
Anna Guðný segir að hún sé sjálf algjör sælkeri og það skemmtilegasta sem hún gerir er að borða góðan mat. „Ég hef sett mikla vinnu í að búa sjálf til uppskriftir sem gera holla fæðu girnilega og bragðgóða. Líf flestra hefur orðið streitumeira, hraðara og það að elda fæðu á hollan máta er eitthvað sem margir mikla mjög mikið fyrir sér og halda að sé mjög flókið og tímafrekt.“
„Það er aðalástæðan fyrir því að ég gerði þetta námskeið, verandi sjálfstætt starfandi og sjálfstæð móðir – þá hef ég þurft að innleiða ýmsar lausnir inn á mitt heimili sem sér til þess að ég sé vel nærð án mikillar fyrirhafnar. Því mér finnst mjög mikilvægt að næra bæði mig og barnið mitt á hollan máta.“
Sumir þurfa eðlilega meiri stuðning og aðhald til að breyta mataræðinu enda getur verið erfitt að kenna gömlum hundi að sitja eins og máltækið segir. Anna Guðný býður einnig upp á netnámskeið sem heitir Endurnærðu þig og er í sex mánuði.
„Það námskeið er með stuðningi frá mér allan tímann í gegnum vikulega spurningalista. Þó aðaláherslan þar sé á að innleiða holla fæðu inn í lífsstílinn á geranlegan hátt, þá snýst það einnig um andlega heilsu, hreyfingu, svefn og hugleiðslur. Það er því heildrænna og persónulegra fyrir hvern og einn. Þar er fólk meira undir mínum verndarvæng og fær persónulegan stuðning og hvatningu frá mér á meðan námskeiðinu stendur. Það námskeið hefur gengið mjög vel og fjöldi kvenna lært að hlúa betur að líkama og sál með því að fara í gegnum það.“
Endurnærandi ferðir til Balí og Borgarfjarðar
Anna Guðný fór til Balí fyrir ári síðan til þess að læra jógakennarann og leist svo vel á að hún er að hún að fara að standa fyrir endurnærandi ferð (e. retreat) núna um páskana. „Ég stend fyrir endurnærandi ferð með tveimur öðrum konum, þeim Rakel og Hrafnhildi. Áherslan verður lögð á sjálfsrækt, jóga og náttúrutöfra Balí. Það er ennþá laust ef einhver hvatvís ævintýradís þarna úti langar að skella sér með. Það gerist alltaf eitthvað einstakt þegar hópur kvenna kemur saman til þess að næra bæði líkama og sál.“
Í covid-inu var það von margra að fólk myndi fara í hægari takt og njóta samverunnar með fjölskyldunni meira og betur en Anna Guðný hefur ekki orðið vör við það. „Auðvitað eru einhverjir sem hafa breytt um áherslur og hægt á. En hvort sem það er vegna áhrifa covid eða ekki, þá finnst mér hraðinn í samfélaginu allt of mikill. Flestir vinna of mikið og halda að næsta frí verði það sem gefi manni sanna hamingju. Þetta kemur mikið niður á börnunum okkar, keyrir upp streitu í líkamanum okkar sem gerir það að verkum að við eigum flest mjög erfitt með að vera í núlíðandi stund og njóta með okkur sjálfum og fólkinu okkar. Hérna þurfum við öll að standa saman og vera meira breytingin sem við viljum sjá. Hægja á, einfalda hlutina og skapa okkur lífsstíl sem við þurfum ekki frí frá. Að setja heilsu okkar og vellíðan í fyrsta sætið núna, ekki seinna.“
„Ég stend svo sjálf fyrir endurnærandi ferð á Borgarfirði eystra helgina 5.-7. maí en Borgarfjörður eystra á risastóran stað í hjarta mínu og þangað fer ég sjálf reglulega til að hlaða batteríin. Nú fær fólk tækifæri til þess að gera það líka. Að fara burt frá daglegu amstri og gefa sér rými til þess að fræðast um heilbrigðan lífsstíl, gera jóga, gista við sjóinn, fara í spa og taka inn alla náttúrutöfrana sem þarna búa. Sem eru svo miklir og bara með því að vera þarna er maður komin í algjöra núvitund og núllstillingu!“ segir Anna Guðný að lokum.