Sjónarvottar segja að flóðið sem kom niður Svaðbælisá í morgun hafi verið líkast fljótandi steypu.
Flóðið stóð fram eftir morgni og fór yfir varnargarða við Þorvaldseyri. Það hafði sjatnað mjög upp úr hádegi. Vinna er hafin við að styrkja varnargarðana við Þorvaldseyri.
Flóðið er til komið vegna yfirborðsösku úr hlíðum Eyjafjallajökuls. Skyggni til jökulsins hefur hefur ekkert verið í dag en á ratsjármyndum sem flugvél Landhelgisgæslunnar tók á flugi yfir jöklinum í morgun sjást greinilega brotlínur á upptakastöðum flóðanna í allt að 1200 metra hæð. Svæðið sem flóðið kom frá er um 4-5 ferkílómetrar.
Aska þarf að innihalda um 20-30% vatn til að aurflóð geti myndast en mikil rigning hefur verið á þessu svæði síðustu stundirnar. Hliðstæðir atburðir geta átt sér stað á öðrum vatnasvæðum jökulsins.