„Skráning fornleifa í öllu sveitarfélaginu stendur yfir og er nokkurra ára verkefni. Búið er að ljúka skráningu á jörðum í einu af gömlu sveitarfélögunum og langt komið í öðru.
Eftir „hrunið“ var hægt á verkefninu en nú er möguleiki á því að hraða vinnslu aftur. Líkur eru á að Skipulagsstofnun greiði helming kostnaðar við viðbótarsamninginn í tengslum við vinnu við aðalskipulagsgerð,“ segir Eydís Indriðadóttir, sveitarstjóri Flóahrepps en sveitarfélagið hefur gert viðbótarsamning við Fornleifastofnun Íslands um skráningu fornleifa í sumar.
Alls er gert ráð fyrir skráningu 400 minja til viðbótar við áður gerðan samning til þess að skráningin gangi hraðar.
„Mikilvægt er að fornleifar séu skráðar og umsögn minjavarðar er forsenda fyrir því að nýframkvæmdir geti átt sér stað á jörðum í sveitarfélaginu. Ef eftir er að skrá og teikna upp einhverjar fornleifar á jörð þar sem fyrirhugað er að reisa t.d. ný hús, þá tefur það verkið sem því nemur. Þess vegna er gott fyrir alla aðila að skráningu ljúki sem fyrst,“ bætir Eydís við.