Flóðið í Hvítá eykst

Flóðgáttin á Brúnastaðaflötum í dag. Ljósmynd: Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands/Einar Sindri

Eins og sunnlenska.is greindi frá í gærkvöldi hætti að flæða framhjá flóðgáttinni á Brúnastaðaflötum um stundarsakir undir kvöld í gær.

Um klukkan 20:30 hækkaði vatnsborð Hvítár aftur og reis um tæpan 1 metra á um 15 mínútum. Þar með fór vatnsborð árinnar uppfyrir flóðgáttina og hefur flóðið heldur verið að aukast eftir því sem líður á daginn.

Vatnið flæðir framhjá flóðgáttinni báðu megin, hluti vatnsins rennur yfir Brúnastaðaflatir en hluti þess rennur ofan í Flóaáveituskurðinn. Mikið hefur hækkað í skurðinum eins og sjá má á myndinni hér að neðan sem tekin er við Þjóðveg 1.

Í færslu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands segir að ísstíflur séu í eðli sínu flókin og óúreiknanleg fyrirbæri og því ómögulegt að segja til um hvað gerist í framhaldinu. Ekki er þó spáð neinum hlýindum né úrkomu sem gætu leitt til aukins rennslis í farvegi.

Flóaáveituskurðurinn við Þingborg. Ljósmynd: Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands/Einar Sindri
Fyrri greinMilljónamæringurinn úr Skálanum ófundinn
Næsta greinHalldór Bjarki ráðinn framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Selfoss