Um níu dagar eru frá því að íshellan í Grímsvötnum byrjaði að síga og hlaupvatn byrjaði að brjóta sér leið undir jöklinum. Nýjustu mælingar sýna að íshellan í Grímsvötnum hefur frá þeim tíma sigið um rúma 17 metra.
Vatnamælingamenn Veðurstofunnar mældu rennsli í Gígjukvísl um kl. 11 í morgun sem var þá tæplega 930 m3/sek og hefur rennslið því nær þrefaldast á um þremur sólarhringum. Þetta rennsli er tífalt rennsli árinnar miðað við árstíma. Rafleiðni, sem gefur til kynna magn hlaupvatns í ánni, fer hækkandi en gas mælist í litlu magni við jökulsporðinn og er vel innan hættumarka.
Grímsvötn eru tilbúin að gjósa
Nýjustu mælingar falla nokkuð vel að þeim rennslisspám sem gerðar hafa verið og gera ráð fyrir að flóðið nái hámarki að öllum líkindum næstkomandi sunnudag. Ef miklar breytingar verða á þróun rennslisins úr Grímsvötnum mun það hafa áhrif á hvenær flóðatoppnum er náð.
Eins og áður hefur komið fram, eru dæmi um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004. Þá sáust ummerki um upphaf hlaups 28. október og gos hófst um þremur dögum síðar, eða í lok dags 1. nóvember. Dagana á undan var skjálftahrina í Grímsvötnum til marks um að eldgos væri í vændum. Engir slíkir skjálftar hafa þó mælst nú.
Síðast gaus í Grímsvötnum 2011, en í það skiptið hafði hlaupið úr Grímsvötnum rúmum sex mánuðum áður. Síðan 2011 hefur svo hlaupið alls sex sinnum úr Grímsvötnum án þess að eldgos verði.
Gosið hefur á fimm til tíu ára fresti úr Grímsvötnum og kemur vísindamönnum saman um að mælingar sýna að aðstæður eru með þeim hætti að Grímsvötn eru tilbúin að gjósa. Ekkert er þó hægt að fullyrða um að eldgos verði samfara þessu hlaupi og fylgjast þarf grannt með skjálftavirkni í Grímsvötnum sem gætu gefið vísbendingar um að gos sé yfirvofandi, að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofunni.