
Fjórir voru fluttir alvarlega slasaðir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík eftir rútuslysið í Öræfum í dag.
Alls voru 32 farþegar í rútunni auk ökumanns. Um er að ræða kínverska ferðamenn.
Þeir sem eru minna slasaðir verða fluttir á sjúkrahús á Selfossi og á Akureyri en klukkan 20 í kvöld lenti sjúkraflugvél frá Norlandair með ellefu slasaða á Selfossflugvelli og var fólkið flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Von er á að minnsta kosti fimm slösuðum til viðbótar á Selfoss síðar í kvöld.
Búið er að opna fyrir umferð á slysstað í Öræfum en lögreglan er enn að störfum á vettvangi og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát og tillitssemi.
Ljóst er að töluvert margir hafa hlotið einhver meiðsli í slysinu en allir farþegarnir munu verða fluttir undir læknishendur til skoðunar og aðhlynningar.