Flokkun úrgangs gengur vel í Árborg

Alls söfnuðust um 62 tonn í grenndargáma Árborgar sem er um 48% aukning milli ára. Ljósmynd/Árborg

Á síðasta fundi umhverfisnefndar Árborgar var lögð fram skýrsla um söfnun úrgangs í sveitarfélaginu á síðasta ári. Fram kom að flokkun íbúa jókst milli ára og greiðslur frá Úrvinnslusjóði hefðu aukist um tæpar 20 milljónir á milli ára.

Alls komu 2.220 tonn af úrgangi frá heimilum í sveitarfélaginu á síðasta ári, mest af almennu sorpi úr grátunnum, 1.245 tonn. Lífrænt sorp taldi 518 tonn, 124 tonn af plasti og 327 tonn af pappa. Þá voru um 6 tonn sem komu úr blátunnum, sem eru blandaðar plast- og pappatunnur.

Endurvinnsluhlutfallið var því um 57% sem er 12% betri árangur miðað við árið á undan. Allt almennt sorp frá Árborg er flutt til orkunýtingar í Evrópu og dugði fyrir um 280 heimili í Danmörku.

Grenndarstöðvar að nýtast vel
Það söfnuðust um 62 tonn í grenndargáma Árborgar sem er um 48% aukning milli ára og greinilegt að íbúar nýta þær vel til að skila inn textíl, gleri og málmum til endurvinnslu. Á gámasvæðinu komu inn um 2.361 tonn sem er svipað og á árið 2023.

Auknar greiðslur frá Úrvinnslusjóði
Þessi árangur íbúa við flokkun skilar hærri greiðslu til sveitarfélagsins úr Úrvinnslusjóði en sem fyrr segir jukust þær um tæplega 20 milljónir króna á milli ára. Árið 2023 fékk sveitarfélagið greitt um 37,5 milljónir en árið 2024 um 56,5 milljónir. Þetta skilar sér í lægri gjöldum til íbúa en í fjárhagsáætlun 2025 lækka gjöld fyrir tvískipta spartunnu og flest önnur sorphirðugjöld stóðu í stað milli ára.

Fyrri greinLygilegur lokakafli í Hveragerði
Næsta greinÞrándarholt sf bauð lægst í reisingu íþróttamiðstöðvarinnar