Flúðaskóli fékk Menntaverðlaun Suðurlands fyrir stórkostlegt leiklistarstarf

Flúðaskóli fékk verðlaunin 2019 fyrir frábært leiklistarstarf. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Flúðaskóli hlaut í gær Menntaverðlaun Suðurlands 2019 fyrir leiklistarstarf á menntasviði. Verðlaunin voru afhent á árlegum hátíðarfundi Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands í sal Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Í Flúðaskóla hafa til fjölda ára verið sett upp metnaðarfull leikverk árlega, annars vegar af 1.-7. bekk skólans og hins vegar af unglingastigi.

Í greinargerð með verðlaununum segir að leiklistarstarfið í Flúðaskóla sé „stórkostlegt skólaverkefni og gott dæmi um það hvað hægt er að gera í samstilltum hópi þegar honum eru skapaðar aðstæður og traust til að skila góðu starfi, þar sem hver einstaklingur fær að nýta hæfileika sína og tengja þá við áhugasvið sitt. Samstarf við nærsamfélagið er gott og viðtökur íbúa og nærsveitunga til fyrirmyndar. Nám sem fram fer með þessu móti leggur m.a. grunn að samfélagsþátttöku einstaklinganna, ýtir undir frumkvæði og kjark og er í raun og veru undirstaða þess að félagsstarf þrífist.“

Forsetafrú Íslands, Eliza Reid, afhenti verðlaunin en fyrir hönd Flúðaskóla tóku við þeim Margrét Larsen, aðstoðarskólastjóri, Árni Þór Hilmarsson, kennari og fimm fulltrúar nemenda; þau Óskar Snorri Óskarsson, Þorbjörg Guðrún Kristófersdóttir, Guðný Vala Björgvinsdóttir, Anna Katrín Víðisdóttir og Valdís Una Guðmannsdóttir.

Sjö verkefni tilnefnd
Sjö verkefni eða stofnanir fengu tilnefningu til verðlaunana að þessu sinni en auk Flúðaskóla voru það Snjólaug Elín Árnadóttir og Unnur Líf Ingadóttir, kennarar við Grunnskóla Vestmannaeyja, verkefni um reglulegar fuglatalningar í Bláskógarskóla á Laugarvatni, Guðríður Helgadóttir forstöðukona Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi, leikskólar í Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu, Grunnskóli Hornafjarðar fyrir verkefnið Hafnarhittingur og Grunnskóli Vestmannaeyja fyrir kennslu fyrir nýbúa.

Tvö doktorsverkefni fengu styrki
Á hátíðarfundinum voru einnig veittir styrkir úr Vísinda- og rannsóknarsjói Suðurlands, sem Háskólafélag Suðurlands og Fræðslunet Suðurlands standa að með stuðningi sveitarfélaga og fyrirtækja á Suðurlandi. Styrkurinn að þessu sinni var 1,5 milljón króna og skiptist hann jafnt á milli tveggja doktorsverkefna. Magdalena Falter fékk styrk fyrir verkefnið Stafræn nýsköpun og virkni frumkvöðla á landsbyggðinni og Sölvi Rúnar Vignisson fékk styrk fyrir verkefnið Að fara eða vera? Ástæður farhátta ungra tjalda á Íslandi.

Hefð er fyrir því að fyrri styrkþegar kynni rannsóknir sín á hátíðarfundinum og að þessu sinni var það Ragnheiður Hergeirsdóttir, sem fékk styrk fyrir mastersverkefni sitt árið 2015. Rannsókn hennar fjallaði um viðbragðsáætlanir félagsþjónustu Árborgar í kjölfar samfélagslegra áfalla árið 2008, sem voru Suðurlandsskjálftinn og bankahrunið.

(F.v.) Sveinn Aðalsteinsson, formaður dómnefndar, Sölvi Rúnar Vignisson, Magdalena Falter og Eliza Reed, sem afhenti styrkina. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinSelfoss vann stigakeppni félaganna
Næsta greinFjórir alvarlega slasaðir eftir árekstur á Skeiðarársandi