„Flúðir eru svo notalegur staður“

Lóa og Almar í nýja bakaríinu á Flúðum. Ljósmynd/Guðmundur Kristinsson

Fyrir skömmu opnaði Almar bakari á Flúðum. Er það fjórða bakaríið sem sem Almar bakari opnar á Suðurlandi en auk þess að vera á Flúðum er Almar bakari í Hveragerði, Selfossi og Hellu.

„Eigandi hússins hafði samband við okkur og viðraði þessa hugmynd við okkur. Við þurftum svolítinn tíma til að hugsa, pæla og spá og létum svo slag standa,“ segir Almar Þór Þorgeirsson í samtali við sunnlenska.is en hann rekur Almar bakara ásamt eiginkonu sinni, Ólöfu (Lóu) Ingibergsdóttur.

Frábær staðsetning
„Okkur leist strax vel á staðsetninguna, því hún er frábær. Húsnæðið er líka flott og geggjaður pallur til að njóta í góðu veðri. Undirbúningurinn gekk frekar hratt fyrir sig þegar ákvarðanirnar voru á hreinu,“ segir Almar en bakaríið er til húsa í nýju húsi við hliðina á félagsheimilinu, við Hrunamannaveg.  „Viðtökurnar hafa verið frábærar og við erum alsæl. Flúðir eru svo notalegur staður,“ segir Almar.

Súrdeigsbrauðin sívinsæl
„Súrdeigsbrauðin okkar, Hilla og Hengill, eru mjög vinsælar vörur hjá okkur og kleinuhringjasnúðurinn er í uppáhaldi hjá mér. Það er enginn annar með svoleiðis og við lýsum honum stundum eins og að kleinuhringur og snúður mundu eignast barn. Mjög góður. Annars er erfitt að gera uppá milli barnanna sinna,“ segir Almar og brosir.

Opna Reykjadal Café í sumar
Almar segir að sumarið leggist vel í þau. „Við njótum góðs af því að Íslendingar eru duglegir að ferðast innanlands og viljum við sjá sem flesta. Við erum vel staðsett á öllum fjórum stöðunum upp á það að gera að vera sýnileg.“

Það er ýmislegt fleira spennandi á döfinni hjá þeim hjónum. Við höfum verið að vinna að kaffihúsi og upplýsingamiðstöð í Reykjadal ásamt rekstraraðilum þar en opnun á Reykjadals Café hefur tafist útaf COVID. Nú fer allt að fara á fullt þar. Við opnum Reykjadal Café á öðrum forsendum og þar verður notarleg stemning með opin arineld og geggjuðu útsýni. Við hlökkum mikið til að opna þar kaffihús og bar með léttum veitingum,“ segir Almar.

„Konan mín, hún Lóa, er nýbúin að opna litla lífstílsbúð í Sunnumörk þar sem bankinn var. Við erum líka þar með skrifstofur. Plássið nýtist mjög vel fyrir kaffistofu fyrir starfsfólk líka. Hún heitir Ramla Store og þangað eru allir velkomnir,“ segir Almar að lokum.

Fyrri greinAdólf ráðinn útibússtjóri
Næsta greinFramsókn fyrir fólk eins og þig