Samningar hafa náðst milli Flugfélagsins Ernis og Vegagerðarinnar um flug til Vestmannaeyja. Fyrsta flugið verður nk. sunnudag og fyrst um sinn verður flogið þrjá daga í viku milli Eyja og Reykjavíkur, á þriðjudögum, miðvikudögum og sunnudögum.
Mikil þörf er á bættum flugsamgöngum til Eyja fyrir almenning, fyrirtæki, stofnanir og ferðaþjónustu. Bæjarráð Vestmannaeyja ályktaði um samning Ernis og Vegagerðarinnar á fundi í gær og fagnar því mjög að Ernir hefji flug nk. sunnudag. Lítur bæjarráð svo á að um sé að ræða fyrsta skrefið í þá átt að koma aftur upp áætlunarflugi til Eyja.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Eyjum, segist mjög ánægð að verið sé að taka fyrstu skerfin í að koma áætlunarflugi aftur í gang til Eyja, enda algerlega nauðsynlegt að hafa þann samgöngumöguleika fyrir Eyjamenn.
G. Ómar Pétursson, rekstrarstjóri Ernis, segir flugið til Vestmannaeyja góða viðbót við starfsemi félagsins og væntir hann góðs af samstarfi við einstaklinga, fyrirtæki og bæjaryfirvöld í Eyjum. Félagið ætli sér á næstu vikum að endurskoða áætlun sína með það að markmiði að gera flugið að raunhæfum og hagkvæmum valkosti til ferða milli lands og Eyja.
Búið er að opna fyrir farmiðasölu á www.ernir.is Verð á fargjöldum er 17.000 kr. fyrir fullorðna og 10.000 kr. fyrir börn 2-11 ára.