Fluttu veikt barn til Reykjavíkur með aðstoð björgunarsveita

Á jóladag fengu sjúkraflutningamenn frá Selfossi aðstoð frá björgunarsveitinni Björg á Eyrarbakka og Hjálparsveit skáta Hveragerði við að komast í gegnum Þrengslin til Reykjavíkur með veikt barn.

Hellisheiði var ófær en flytja þurfti barnið á barnaspítala Hringsins vegna bráðra veikinda. Að sögn Ármanns Höskuldssonar, yfirmanns sjúkraflutninga HSu, var skyggni mjög slæmt í Þrengslunum og nauðsynlegt að fá aðstoð björgunarsveita til þess að tryggja að ferðin yrði áfallalaus.

„Við þökkum björgunarsveitunum kærlega fyrir aðstoðina. Þetta sýnir hversu mikilvægt það er að hafa öflugar björgunarsveitir sem eru tilbúnar til þess að bregðast við þegar á þarf að halda,“ sagði Ármann í samtali við sunnlenska.is.

Á aðfangadag og jóladag fóru sjúkraflutningamenn og -konur á Selfossi í níu útköll, sjö sinnum vegna ýmissa bráðra veikinda og tvisvar sinnum vegna slysa.

Fyrri greinHelgi greiddi atkvæði gegn fjárhagsáætluninni
Næsta greinRóleg jól hjá Selfosslöggunni