Fjórir slösuðust þegar bifreið fór útaf Skeiða- og Hrunamannavegi við Auðsholtsveg um klukkan fjögur í nótt. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti ökumann bifreiðarinnar á Landspítalann í Fossvogi.
Fjórir voru í bílnum en hinir þrír voru fluttir á heilsugæsluna á Selfossi með sjúkrabílum. Ökumaðurinn var meðvitundarlaus þegar að var komið en rankaði síðar við sér. Ekki er vitað um líðan hans að svo stöddu. Allir sem í bílnum voru eru um tvítugt, að sögn lögreglu.
Tilkynning um útafaksturinn barst lögreglu um kl. 3:30 í nótt. Um klukkustund síðar var þyrla Landhelgisgæslunnar komin á staðinn og lenti hún síðan í Reykjavík um klukkan fimm í nótt.
Lögreglan á Selfossi rannsakar tildrög slyssins. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is bentu bremsuför á vettvangi til þess að bifreiðinni hafi verið ekið mjög hratt áður en hún fór útaf veginum. Bíllinn valt ekki, heldur fór fram af veginum og rakst framendi hans harkalega niður.