Í lok síðustu viku komu saman öll ungmenni sem hafa unnið við fegrun og endurbætur í Tungu- og Tumastaðaskógi í Fljótshlíð í sumar og grilluðu.
Tilefnið var að verkefnum í skógunum var að ljúka, en ungmennin hafa staðið sig einstaklega vel, grisjað og hreinsað brotnar greinar og séð um að kurla það líka. Þau lögðu hátt í 2 km af kurli í göngu og hjólastíga. Búið er að slá flatir og setja þar bekki og borð. Eldstæði var hlaðið þar sem hægt er að grilla, vatnslögn var lögð að salernishúsi og komið var upp vatnskrana fyrir neysluvatn.
Bekkir, gerðir úr timbri úr skóginum, eru á megingönguleiðinni þar sem gott er að sitja og hlusta á lífið í skóginum og finna ilminn af trjánum. Aðgengi að svæðinu hefur verið bætt með stækkun bílastæða.
Ungmennin prófuðu hjólaleiðirnar sem eru stikaðar og merktar og allir ánægðir með afraksturinn. Samstarf hefur verið við Skógræktina við þessa vinnu og er nú unnið að nýju yfirlitskorti fyrir svæðið allt.
Þorsteinn Jónsson er verkstjóri með ungmennunum í sumar. Þau hafa haft það markmið í sumar að bæta aðgengi að áfangastöðum og náttúruperlum í sveitarfélaginu ásamt því að fegra og hreinsa.