Fólk beðið um að spara heita vatnið

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Vegna mikillar kuldatíðar næstu daga eru notendur hjá Selfossveitum beðnir um að fara sparlega með heita vatnið.

„Mikilvægt er að hafa í huga að þeir köldu dagar sem hafa komið undanfarið hafa verið í hæglátu veðri. Nú er hins vegar útlit fyrir töluverðan vind sem veldur mikilli kælingu ofan á það frost sem er í kortunum,“ segir Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri.

„Selfossveitur eru vel undir þetta kuldakast búnar þar sem miklar úrbætur hafa verið gerðar á undanförnum árum þ.m.t meiri orkuöflun, stærri stofnagnir og ný aðaldælustöð. Við biðlum samt til íbúa að vinna þetta með okkur með því að huga að sínum enda á hitaveitunni.“

Að sögn Sigurðar getur fólk sparað heitt vatn og þar með kyndikostnað sinn með því að gæta að því að gluggar séu ekki opnir og útidyr ekki látnar standa opnar lengur en þörf er á. Þá skipta einnig máli stillingar ofna – að óþarflega heitt vatn renni ekki frá þeim – og að ofnarnir séu ekki byrgðir, til dæmis með síðum gluggatjöldum eða húsgögnum.
Þá eru heitir pottar við heimili talsvert þurftafrekir á vatnið og gott að hafa í huga að fara sparlega með neysluvatn eins og við uppvask, sturtur og böð.

Fyrri greinNýtt tímarit fyrir fagfólk í ferðaþjónustu
Næsta greinÞjótandi með lægsta tilboð í ljósleiðara í Eyjum