Farfuglar streyma nú til landsins, m.a. frá sýktum svæðum í norðurhluta Evrópu þar sem fuglainflúensa hefur valdið skaða í alifuglum. Óvissustig er í gildi vegna fuglainflúensu hérlendis og biður Matvælastofnun almenning um að tilkynna um fund á veikum og dauðum villtum fuglum.
Greiningar í Evrópu í vetur hafa verið mun færri en búist var við en sýkingar hafa verið algengastar í vatnafuglum, sér í lagi í álftum, hnúðsvönum, helsingjum, grágæsum og stokköndum. Einnig hélt sýking áfram að finnast í máfum, svo sem silfurmáfum og hettumáfum.
Fuglainflúensa hefur ekki greinst hér á landi síðan í nóvember 2023. Þá fundust skæðar fuglainflúensuveirur af gerðinni H5N5 í hröfnum á Selfossi og í Mýrdal.
Smithætta fyrir almenning talin lítil
Matvælastofnun segir mikilvægt að fá tilkynningar frá almenningi um fund á veikum og dauðum villtum fuglum. Æskilegt er að fá ábendingu með myndum og með hnit fundarstaðarins, lýsingu á fjölda fugla og tegund. Matvælastofnun metur þörf á sýnatöku, en ekki eru tekin sýni úr öllum villtum fuglum sem tilkynnt er um. Engu að síður eru allar tilkynningar mikilvægar fyrir mat á stöðunni.
Smithætta fyrir almenning frá sýktum villtum fuglum er talin lítil. Þrátt fyrir það er almenningur hvattur til að snerta ekki hræ villtra fugla.