Verslunin Venus opnaði síðastliðinn fimmtudag að Hrísmýri 5 á Selfossi. Verslunin er svokölluð hringrásarverslun eða básaleiga þar sem fólk getur selt notuð föt og fylgihluti.
Fólk kemur þá með föt og fylgihluti í verslunina sem það vill selja, setur upp sinn sölubás og verslunin sér um að selja vörurnar fyrir viðkomandi gegn þóknun. Að versluninni standa bræðurnir Hlynur Snær Jóhannesson og Styrmir Jarl Rafnsson frá Selfossi.
Þegar blaðamaður sunnlenska.is leit við eftir hádegi á laugardegi var stöðugur straumur fólks í verslunina og var það mál manna að verslunin þyki einstaklega vel heppnuð í alla staði.
„Viðtökurnar hafa verið æðislegar, langt fram úr okkar björtustu vonum. Fólk er að elska þessa hugmynd, fólk elskar væbið hérna inni. Við erum mjög þakklátir fyrir þessar frábæru viðtökur,“ segir Hlynur.
Trúðu að þeir gætu gert þetta saman
Hrísmýri 5 er ekki beint hefðbundið verslunarhúsnæði en þegar gengið er inn í Venus þá er eins og það hafi verið sniðið fyrir verslunina.
„Þegar við skoðuðum húsnæðið sáum við að það væri bjart og rúmgott og hugsuðum að það væri hægt að gera eitthvað sniðugt. Þetta var verkstæði til margra ára þannig við vissum að við þurftum að leggja nokkuð mikla vinnu í húsnæðið. Nánast sama dag vorum við sammála um að gera stóra og góða básaleigu sem við trúðum að við gætum gert saman. Við höfum báðir verið í allskonar iðnaði og með áhuga á tísku og sjálfbærum lífsstíl,“ segir Hlynur.
Styrmir bætir því við að þeir hafi byrjað að líta í kringum sig í kringum miðjan október eftir hentugu húsnæði. „Undirbúningurinn gekk rosalega vel, við vinnum mjög vel saman og höfum báðir mismunandi kosti sem passa vel saman, einnig nýttum við vini og vandamenn til að hjálpa okkur með ferlið og erum ævinlega þakklátir fyrir það.“
Næsta gata við Hrísmýrina er þjóðvegur eitt. „Við erum með stórt skilti utan á húsinu þannig að þetta fer ekki framhjá neinum. Við höfum fengið þó nokkuð marga túrista inn til okkar sem áttu leið hjá og kunna þeir vel að meta verslun sem þessa.“
Hafa sköpunargleðina frá mömmu sinni
Venus þykir einstaklega vel hönnuð og falleg verslun, björt og rúmgóð, þar sem er hugsað út í smæstu smáatriði. Til að mynda hafa númerin á básunum verið prentuð út í þrívíddarprentara, ljós er yfir Venusar-logoinu á búðarborðinu og svo mætti lengi telja.
Bræðurnir eiga einir heiðurinn að heildarútlitinu en hvorugur þeirra er þó menntaður í hönnun. „Ég er hárgreiðslumaður,“ segir Hlynur. „Og ég er tattoo-artisti,“ bætir Styrmir við. „En við erum báðir með þessa sköpun í okkur, okkur finnst gaman að skapa. En svo höfum við þetta líka frá mömmu okkar,“ segir Styrmir.
VIP þjónusta fyrir fólk í tímaþröng
Þegar sunnlenska.is leit við voru um 4.000 flíkur til sölu í Venus. „Lang stærsti hlutinn eru kvenmannsföt en um 30% af öllum flíkunum eru karlmanns og höfum við þau föt á sér stað svo að það sé auðvelt að finna þau.“
„Við erum með 116 bása og við bjóðum einnig upp á VIP þjónustu fyrir fólk sem hefur ekki tíma í þetta þar sem þú kemur með fötin í poka eða kassa og við græjum allt ferlið. Sjáum um að taka myndir, strauja fötin og verðmerkja í samráði við leigjenda. Við vildum bjóða fólki á að hafa opið alla daga, líka á sunnudögum. Virkir dagar 11-19 og helgar 12-17 og hægt er að bóka bás á www.venusverslun.is,“ segir Styrmir.
„Við leggjum áherslu á föt og fylgihluti eins og húfur, skart, ilmvötn og allt sem gæti tengst tísku fyrir 14 ára og eldri en við erum ekki með nytjamuni eða hluti sem maður myndi finna á nytjamarkaði. Við leggjum áherslu á vandaðan og vel með farinn fatnað,“ segir Hlynur að lokum.