Félags- og húsnæðismálaráðuneytið stendur nú fyrir átaksverkefni gegn félagslegri einangrun undir yfirskriftinni Tölum saman.
Eitt af þeim úrræðum sem eru í boði vítt og breitt um landið er þjónusta tengiráðgjafa, en þeir veita eldra fólki og öðrum viðkvæmum hópum stuðning til að rjúfa félagslega einangrun og finna leiðir til að auka virkni. Tengiráðgjafinn í Árborg og Hveragerðisbæ er Bylgja Sigmarsdóttir.
Félagsleg einangrun er ekki það sama og félagsleg nægjusemi
„Einmanaleiki er huglæg, óvelkomin tilfinning sem við finnum fyrir þegar við upplifum skort á félagslegum samskiptum. Fólk er í eðli sínu félagsverur og því er nauðsynlegt að eiga í félagslegum samskiptum við annað fólk. Einmanaleiki er tilfinning sem getur komið og farið,“ segir Bylgja í samtali við sunnlenska.is.
„Félagsleg einangrun er hins vegar lítil eða engin félagsleg tengsl. Félagsleg einangrun er ekki það sama og félagsleg nægjusemi. Nær allar mannverur hafa þörf fyrir tengsl og einhvers konar nánd. Það að vera „út af fyrir sig“ og að einangrast félagslega er ekki það sama.“
Getum öll verið hluti af lausninni
Sem fyrr segir er verkefnið Tölum saman á vegum félags- og húsnæðismálaráðuneytisins, sem vill vekja athygli almennings á því hve alvarleg félagsleg einangrun er og hvernig við getum öll verið hluti af lausninni.
„Hlutverk mitt sem tengiráðgjafi er að vinna gegn einmanaleika og félagslegri einangrun ásamt því að vera í góðum tengslum við staðbundna aðila til að nýta sem best þær bjargir sem fyrir eru í samfélaginu. Það er einnig mitt hlutverk að nálgast félagslega einangrað eða einmana fólk og fólk sem er í hættu að einangrast. Það er gert eftir þörfum með símtölum og heimsóknum og ég leita leiða með samtölum og stuðningi til að draga úr einmanaleika og einangrun. Öll vinnsla mála er svo tekin á þeim hraða sem einstaklingurinn sjálfur vill.“
Lýðheilsuvandi sem ógnar heilsu fólks
Bylgja segir að það sé mjög mikilvægt að taka á félagslegri einangrun.
„Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint félagslega einangrun sem lýðheilsuvanda til jafns við reykingar, ofneyslu áfengis, offitu og fleiri stórfelldar ógnir við almenna heilsu. WHO telur að um eitt af hverjum tíu ungmennum upplifi félagslega einangrun og um fjórðungur eldra fólks.“
„Orsakir félagslegrar einangrunar eru fjölþættar. Andlát maka, skilnaður, veikindi, vinslit, atvinnumissir og fleiri áföll geta allt verið orsakir þess að fólk dregur sig inn í skel eða missir tengsl við nærsamfélagið.“
Ýmis ráð til að rjúfa félagslega einangrun
Aðspurð hvað annað fólk geti gert til að leggja átakinu lið segir Bylgja að það séu ýmis ráð eru til að rjúfa félagslega einangrun, hvort sem er fyrir þau sem eru félagslega einangruð eða samfélagið allt.
„Ég vil hvetja þá einstaklinga sem finna fyrir einmanaleika og vilja auka virkni sína að hafa samband við velferðarþjónustu í sínu sveitarfélagi. Sveitarfélög geta leiðbeint einstaklingum og á sumum svæðum starfa tengiráðgjafar sem geta aðstoðað,“ segir Bylgja að lokum.
Ýmis ráð eru til að rjúfa félagslega einangrun, hvort sem er fyrir þau sem eru félagslega einangruð eða samfélagið allt. Í tengslum við vitundarvakninguna hafa gagnlegar upplýsingar verið teknar saman á island.is/felagsleg-einangrun. Þar má til dæmis finna ráðleggingar við spurningum á borð við:
- Hefurðu nýlega upplifað missi, skilnað eða starfslok?
- Hefurðu nýlega lent í félagslegum áföllum eða átökum sem hafa valdið kulnun eða félagskvíða?
- Treystirðu mikið á samfélagsmiðla til að fylgjast með kunningjum eða heiminum í heild?
- Hefur nágranni þinn eða ættingi í auknum mæli „horfið inn í skelina“?
- Eru vísbendingar í umhverfi sem gefa í skyn minnkandi virkni?
Í netspjalli og hjálparsíma Rauða krossins 1717 má síðan fá upplýsingar og ráðgjöf allan sólarhringinn.