„Þessi krafa um að lægstu laun verði 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára er bæði eðlileg og sanngjörn.
Við þurfum ekki annað en að horfa til kjarasamninga sem gerðir hafa verið á undanörnum mánuðum, þar sem samið hefur verið um verulegar kjarabætur,“ segir Már Guðnason formaður Verkalýðsfélags Suðurlands um kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands, sem afhent var Samtökum atvinnurekenda í vikunni. Starfsgreinasambandið fer með samningsumboð fyrir félagið.
„Við undirbjuggum kröfugerðina vel, efnt var til funda á félagssvæðinu og skoðanakönnun var gerð meðal félaga um helstu áhreslur í komandi kjaraviðræðum. Í lokin var svo haldinn sameiginlegur fundur stjórnar, trúnaðarráðs og varastjórnar, þar sem endanleg kröfugerð var samþykkt.“
Már segir athyglisvert að bera saman nýjar tölur um laun á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin.
„Þar kemur í ljós að munurinn á dagvinnulaunum er mun minni meðal tekjuhærri hópanna en hjá þeim sem eru með lægri tekjur. Þegar stjórnendur eru bornir saman, sést að dagvinnulaun stjórnenda á Íslandi eru í raun 5% hærri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Hérna eru dagvinnulaun verkafólks hins vegar allt að 30% lægri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Þessar tölur segja í raun og veru allt sem segja þarf og krafa okkar er að þetta bil verði leiðrétt.“
Már er ekki bjartsýnn á komandi kjaraviðræður.
„Nei, því miður. Viðbrögð Samtaka atvinnulífsins eru á þá leið að ekkert svigrúm er fyrir hendi til að hækka laun þeirra sem lökust hafa kjörin. Ég óttast þess vegna að viðræðurnar verði erfiðar og að jafnvel þurfi að grípa til einhverra aðgerða. Fólk er orðið langþreytt á láglaunastefnunni og vill lifa af dagvinnulaununum í stað þess að þurfa að treysta á yfirvinnu, aukavinnu og akkorð til að framfleyta sér og sínum. Þetta ástand getur hreinlega ekki varað lengur, það er svo einfalt,“ segir Már Guðnason formaður Verkalýðsfélags Suðurlands.