Gríðarleg loftmengun er í Rangárþingi vegna öskuryks og sést varla á milli húsa á Hvolsvelli. Mökkurinn er yfir öllu Suðurlandi og nær vestur til Reykjavíkur.
Lögregla biður fólk um að vera sem minnst útivið enda hættulegt fyrir fólk með astma og aðra sjúkdóma í öndunarfærum að vera úti. Á Hvolsvelli er logn og hiti en fáir eru á ferli í þorpinu og þeir sem fara út úr húsi bera rykgrímur.
Skyggni á Suðurlandsvegi milli Hvolsvallar og Víkur er um 100 metrar.
Svifryksmælir á Hvolsvelli sýndi 1.233 míkrógrömm á rúmmetra fyrr í dag. Heilsuverndarmörk svifryks á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Í Vík í Mýrdal mældist svifrykið 368 míkrógrömm á rúmmetra í dag og 271 míkrógramm á rúmmetra í Reykjavík sem einnig er vel yfir hættumörkum.