Fólk sýni aðgát á bökkum Hvítár

Flóðgáttin á Brúnastaðaflötum. Ljósmynd: Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands/Einar Sindri

Fólk er beðið um að sýna aðgát nærri árfarvegi Hvítár næstu daga. Ísstíflur eru til staðar víða um land og geta ár flætt yfir bakka sína vegna hláku og rigningar á morgun, sunnudag.

Vatnshæð í Hvítá við Brúnastaði hefur lækkað síðustu daga og hefur haldist nokkuð stöðug síðasta sólarhring. Vatnshæð er þó enn há og fólk er beðið um að sýna aðgát nærri árfarveginum.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að erfitt sé að spá fyrir um þróun þessarar atburðar en Veðurstofan fylgist áfram náið með þróuninni í samstarfi við Almannavarnir og Lögregluna á Suðurlandi.

Gul viðvörun er í gildi í nótt og fyrramálið vegna hvassviðris og rigningar. Búast má við talsverðum leysingum, auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum. Þá er gert ráð fyrir hlýindum og rigningu fram eftir næstu viku.

Fyrri greinStór dagur hjá Umf. Heklu
Næsta greinVörn og markvarsla í aðalhlutverki