„Fólk tekur okkur fagnandi“

Tinna Ósk Björnsdóttir og Finnur Hafliðason, eigendur Selbita. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Matvinnslufyrirtækið Selbiti á Selfossi hefur vakið mikla athygli að undanförnu fyrir veislubakkana sína.

„Við erum í grunninn samlokugerð og höfum verið að selja okkar framleiðslu til nokkurra aðila núna í bráðum ár,“ segir Tinna Ósk Björnsdóttir, en hún og eiginmaður hennar, Finnur Hafliðason, eiga og reka Selbita.

„Vöruúrvalið er fjölbreytt; samlokur, langlokur, rúnstykki, pasta, jógúrt, ávaxta- og grænmetisbox og vefjur. Stór partur af vörulínunni hefur verið þróaður hér innanhúss svo flest er eingöngu hægt að fá frá okkur, en í bland við hefðbundnari tegundir af samlokum sem allir þekkja,“ segir Tinna en fyrirtækið er staðsett að Eyravegi 23 á Selfossi.

Eitthvað fyrir alla
„Við bökum sjálf kökur og skonsur, gerum okkar eigin hummus og pastasalöt. Smyrjum líka flatkökur og rúgbrauð frá HP kökugerð, erum með vegan vörur, laktósafríar og glútenfríar. Við erum nýbyrjuð með veislubakka; sushi, vefju og brauð og hefur það fengið frábærar viðtökur,“ segir Tinna.

„Við sendum frá okkur fyrstu framleiðslu stuttu fyrir jól á síðasta ári og framleiðum daglega í pantanir fyrir viðskiptavini okkar. Við höfum verið að bæta hægt og rólega við framleiðsluna síðan þá. Ákváðum svo að bæta við sushi þar mikil eftirspurn var eftir því á svæðinu og Finnur var orðinn leiður á að þurfa alltaf að sækja sushi þegar hann var að þvælast í Reykjavík,“ segir Tinna.

Þurftu að loka fyrr vegna hráefnisskorts
„Við opnuðum svo dyrnar hjá okkur 1. október með einn sushi-dag í viku. Dagana 18.-21. október var fyrsta helgin sem var opið og þá stóð til að hafa opið alla helgina en við sáum seinnipartinn á laugardeginum að við myndum ekki eiga nægt hráefni til þess að afgreiða gesti okkar daginn eftir. Við urðum því að hafa lokað á sunnudeginum,“ segir Tinna.

„Fyrir síðustu helgi var fyllt töluvert betur á birgðirnar. Fólk tekur okkur fagnandi og kemur alveg oftar en einu sinni sömu helgina. Við erum með pöntunarkerfi fyrir sushi-ið og veislubakkana. Fólk hringir, sendir okkur tölvupóst eða það sem best er, sendir okkur Facebook skilaboð. Þá er fólk búið að skoða hvað er í boði og búið að velja sér í pöntun. Við sendum svo skilaboð þegar pöntunin er tilbúin, mjög þægilegt og við minnkum matarsóun með þessum hætti,“ segir Tinna.

„Þetta væri ekki hægt án stórfjölskyldunnar, við erum að fá gríðarlega hjálp þaðan. Svo eru hjá okkur nokkrir frábærir starfsmenn sem vinna í hlutastarfi,“ segir Tinna.

Nesti fyrir íþróttamótin og ferðalögin
Að sögn Tinnu er nóg framundan hjá þeim í Selbita. „Áframhaldandi þróun á sushi framboðinu. Við stefnum á að hafa opið alla daga með kaffi, smurt brauð og bakkelsi og með tíð og tíma líka sushi á hverjum degi.“

„Ein pæling hjá okkur var að hafa opið eldsnemma á virkum dögum ef fólk vildi kaupa nýsmurt skólanesti fyrir börnin eða kippa með sér í vinnuna. Fólk getur alltaf pantað hjá okkur nestispakka hvort sem er fyrir vinnu, skóla, íþróttamót eða bara í ferðalagið. Ekkert mál að spyrja um eitthvað sem er kannski ekki á hinum hefðbundna pöntunarlista hjá okkur, bara hafa samband og við skoðum málið,“ segir Tinna að lokum.

Facebook-síða Selbita.

Fyrri greinSólheimajökull aldrei hopað jafn mikið á milli ára
Næsta greinUmferðartafir við Ytri-Rangá – Bilun í stofnlögn