Fólk varað við að fara nálægt eldstöðinni

Ekki er hægt að útiloka að öflugir öskustrókar geti komið fyrirvaralaust og er fólk því varað við að fara nærri gosstöðvunum.

Gosvirkni í Grímsvötnum hefur farið minnkandi frá því kl. 3:30 í nótt. Gosórói hefur minnkað og engir jarðskjálftar hafa mælst í eldstöðinni sjálfri.

Að sögn sérfræðinga Veðurstofunnar mældist strókur í um 7 km hæð kl. 21:00 í gærkvöldi. Síðar, rétt upp úr kl. 2:00 skaust upp strókur sem mældist 12 km hár. Um kl. 3:30 mældist strókur í 5 km hæð, sennilega gufustrókur. Síðan þá hefur ekkert mælst á radar og sjónarvottar á svæðinu upplýstu um litla stróka upp í 100-300 m hæð, mestmegnis gufustrókar en ösku má þó sjá öðru hvoru.

Að loknu eftirlitsflugi með TF-SIF staðfestu vísindamenn frá Jarðvísindastofnun HÍ það sem áður hafði komið fram; minnkandi virkni en óreglulega gosstróka sem geta verið varasamir.

Gjóskuframleiðsla er óveruleg og er að mestu um að ræða öskufok á sunnanverðum jöklinum og í næsta nágrenni eldastöðvarinnar.

Gosórói á jarðskjálftamælinum á Grímsfjalli hefur farið minnkandi. Engir jarðskjálftar hafa mælst í eldstöðinni sjálfri.

Fyrri greinFuglafriðland á Dyrhólaey: Vettvangur réttarbrota eða endurreisnar hnignandi lífríkis?
Næsta greinHreinsunarstarf að hefjast