Morgunverðarstaðurinn Byrja á Selfossi fagnar eins árs afmæli nú um helgina en staðurinn hefur slegið í gegn hjá heimamönnum jafnt sem erlendum ferðamönnum síðan hann opnaði.
„Það verður kaka í boði fyrir alla sem koma hingað um helgina. Við ætlum að fagna með okkar fólki. Við erum svo heppin með það hvað heimamenn eru duglegir að koma hingað en það er ótrúlega góð skipting milli túrista og heimamanna,“ segir Vigfús Blær Ingason, annar eigandi Byrja, í samtali við sunnlenska.is.
„Maður finnur það sérstaklega núna utan háannatímans í túrismanum hvað það er mikilvægt að heimamaðurinn tók vel á móti okkur og margir sem koma oft og reglulega. Ferðamaðurinn kemur og fer en það er lókallinn sem heldur manni á lífi.“
Vigfús rekur Byrja ásamt eiginkonu sinni Christine Rae en veitingastaðurinn er staðsettur að Austurvegi 3 á Selfossi, í sama húsi og Krónan. Hjónin eiga tvö ung börn svo að þau hafa nóg á sinni könnu – ekki bara kaffikönnu. Þau fá góða hjálp frá fólkinu í kringum sig, til að mynda kemur faðir Vigfúsar, Ingi Þór Jónsson, alla morgna til að skúra staðinn áður en það er opnað.
Sumir koma daglega
Síðan Byrja opnaði 27. janúar í fyrra hefur staðurinn verið með eindæmum vinsæll og er augljóst heimamenn kunna ekki síður að meta svona morgunverðarstað heldur en ferðamennirnir.
„Viðtökurnar hafa verið frábærar. Í öllum plönum áður en við opnuðum var þetta rosalega ferðamannadrifið en það var fljótt að breytast þar sem okkar helstu viðskiptavinir er fólkið hér í bænum og í kring. Þau eru svo dugleg að koma og sumir koma daglega, sem er alveg dásamlegt.“
Íslendingar vanir að fá sér bara hafragraut
Vigfús segir að þau hefðu vonast til að heimamenn myndu taka þeim vel en voru alls ekki að treysta á það.
„Við vissum að þetta konsept, morgverðarveitingastaður, er nýtt og við sem Íslendingar erum kannski ekkert vön því að borða heitan morgunmat. Ef við borðum eitthvað heitt þá er það bara hafragrautur eða ristað brauð. Viðbrögðin hafa verið miklu sterkari en við áttum von á.“
Vigfús líkir Byrja við stemningsstað. „Fólki líður vel hérna, það segir okkur það. Það er þessi svona afslappaða diner stemning, það eru allir einhvern veginn að spjalla saman og við hlaupandi um með kaffikönnuna að fylla á kaffibolla. Það vantar bara köflóttu svunturnar,“ segir Vigfús og hlær.
Heimsfræg vefja á Selfossi
Að sögn Vigfúsar á staðurinn sína fastakúnna. „Það eru nokkrir vinahópar sem koma til dæmis alltaf á föstudögum. Við erum líka voðalega vinsæl hjá mömmuhópum útaf leiksvæðinu okkar. Okkur finnst það alveg dásamlegt þegar það koma hingað tíu mömmur með tíu börn og rústa öllu. Það er líka svo mikill kostur fyrir foreldra sem eiga ung börn að við opnum klukkan sjö. Það er voða fínt að geta komið hingað, skellt barninu í barnahornið og jafnvel ná að drekka kaffið á meðan það er heitt.“
„Heimamaðurinn er voða mikið að koma í hádeginu og hjá honum er sesarsalatið og sesarvefjan lang vinsælast, ásamt Byrja-hamborgaranum. Sesarvefja er einhvern veginn orðin heimsfræg hérna á Selfossi. Við vorum til dæmis að byrja samstarf við líkamsræktarstöðina GYM800 en við dælum bara salötum og vefjum þangað, sem liðið er að taka með sér strax eftir æfingu. Það hefur algjörlega slegið í gegn.“
„Þegar fólk kemur til okkar um helgar þá er það yfirleitt að koma í bröns. Þá er Morgunveislan, sem er stóri bröns diskurinn, vinsælast hjá okkur. Eggs Benedict hefur einnig verið mjög vinsælt hjá okkur síðan nýi matseðilinn kom,“ segir Vigfús og bætir því við að það sé einnig hægt að fá grænmetisrétti á Byrja enda sé konan hans grænmetissæta.
Montin af þessu fyrsta ári
Fyrsta árið hjá flestum fyrirtækjum, sérstaklega í veitingabransanum, getur verið ansi stembið og er Vigfús þakklátur fyrir það hversu vel hefur gengið hjá þeim.
„Við viljum þakka öllum, bæði Selfyssingum og öðrum Sunnlendingum fyrir að taka svona vel á móti okkur. Við erum með til dæmis með hjón frá Hellu sem hafa komið hvern einasta sunnudag, í einhverja mánuði, að borða hjá okkur. Fólk héðan og þaðan er duglegt að koma til okkar þannig að við erum voðalega þakklát og líka voðalega montin af þessu fyrsta ári.“
„Það er ekkert grín að reka svona stað með tvö lítil börn en hefur gengið ótrúlega vel og við ætlum að fagna þessa helgi. Það verður gaman að sjá sem flest andlit hérna að gefa okkur high five,“ segir Vigfús kátur að lokum.