„Fólki líkar vel að búa hérna“

Stóru-Laxárbrú á Skeiða- og Hrunamannavegi. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir

„Þetta er ánægjuleg fjölgun en hún er að hluta til þannig til komin að erlendir starfsmenn við byggingu virkjunarinnar Búrfells 2 hafa skráð sitt lögheimili í sveitarfélaginu.“

Þetta segir Kristófer Tómasson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, en íbúum sveitarfélagsins fjölgaði um 73 á síðasta ári eða 14%.

„Þessar nýju skráningar tengdar virkjunarstarfsmönnunum eru um 40 talsins. Þar fyrir utan hafa nokkrar fjölskyldur sest hér að. Það er gaman að geta þess að við höfum upplifað verulega fjölgun í leik– og grunnskóla að undanförnu. Ég kýs að líta svo á að það sé staðfesting á því að fólki líkar vel að búa hér,“ segir Kristófer.

Draugaskráningum fækkar í Hrunamannahreppi
Vestan við Stóru-Laxá, í Hrunamannahreppi, fækkar íbúunum hins vegar. Hrunamönnum fækkaði um 34, eða -4,2%. Sú fækkun skýrist helst af því að verið var að taka til í skráningu erlendra ríkisborgara í hreppnum.

„Stærsti hluti af þessari fækkun eru erlendir ríkisborgarar sem voru orðnir með „draugaskráningu“ í Þjóðskrá. Um 18% íbúa Hrunamannahepps eru með erlent ríkisfang og það vill brenna við að þeir sem eru tímabundið ráðnir gleymi að skrá sig í burtu. En það var gert átak í því á síðasta ári,“ segir Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri Hrunamannahrepps.

„Síðan eru það alltaf sveiflur sem koma milli ára, t.d. milli fæðinga og dauða en það var óvenjumikið um að eldra fólk félli frá á síðasta ári. Það er samt búið í hverju húsi á svæðinu en síðan má segja að það íbúðarhúsnæði sem fer undir ferðaþjónustu eða orlofshús leiði til þess að við eigum í vandamálum með að mæta þörfum þeirra sem hér vilja búa,“ bætir Jón við.

Fasteignamarkaðurinn mjög líflegur
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, segir að ýmsir þættir skýri fjölgunina í Árborg, sem var 3,2%. Þar fjölgaði íbúum um 265, sem er helmingurinn af heildarfjölguninni á Suðurlandi.

„Ég hef grun um að hagstæðara fasteignaverð hér en á höfuðborgarsvæðinu spili stóra rullu. Það hefur mikið verið byggt af íbúðarhúsnæði á Selfossi síðustu misserin og nú er einnig hafin uppbygging á slíku húsnæði á Eyrarbakka og Stokkseyri. Nánast allt húsnæði sem var í eigu lánastofnana hefur verið selt og er fasteignamarkaðurinn mjög líflegur,“ segir Ásta og bætir við að í Árborg sé þjónustustigið líka hátt, góð staða í grunn- og leikskólum og góð íþróttaaðstaða. Sveitarfélagið finni ekki verulega fyrir vaxtarverkjum.

„Svonefndir innviðir sveitarfélagsins voru ágætlega í stakk búnir fyrir fjölgun íbúa. Það hefur verið talsvert framboð af byggingarlóðum, enn er góð staða hvað varðar leikskólapláss og nýleg viðbygging við Sunnulækjarskóla bjargar enn sem komið er málum hvað varðar pláss í grunnskólum,“ segir Ásta.

Lítil fjölgun hefur mikil áhrif
Mesta hlutfallslega fjölgunin á Suðurlandi er í Ásahreppi þar sem íbúunum fjölgaði um hvorki meira né minna en 17,4%, eða 38 manns. Sveitarfélagið er fámennt og því munar mikið hlutfallslega um hvern einstakling.

„Fjölgun íbúa er mjög svo ánægjuleg þróun og sveitarfélagið hefur í gegnum tíðina unnið að því jafnt og þétt að bæta búsetuskilyrði íbúa. Ég bendi jafnframt á það að lítil fjölgun íbúa hefur mikil áhrif þar sem sveitarfélagið er fámennt,“ segir Nanna Jónsdóttir, sveitarstjóri.

TENGDAR FRÉTTIR:
Sunnlendingar komnir yfir 21 þúsund

Fyrri greinÞjótandi bauð lægst í Langholtsveg
Næsta greinReynisfjalli lokað vegna snjóþyngsla – Búið að opna aftur