Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-SYN flaug síðdegis í dag með vísindamenn frá Almannavörnum og Veðurstofu Íslands að til að kanna aðstæður við Sólheimajökul og Kötlujökul.
Áætlað var að skoða rennsli í Jökulsá og Múlakvísl, sem og sigkatla upp á jöklinum í framhaldi af því að í dag var lýst yfir óvissustigi á svæðinu vegna vatnavaxta í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi.
Flogið var með Múlakvísl að Kötlujökli og reynt var að að þræða ána upp að sigkötlum sem þar eru. Þar sem lágskýjað var á jöklinum og lítið skyggni var ákveðið að fljúga yfir Austmannbungu og Entu. Síðan var flogið út á sjó og lækkað flugið inn á strönd, upp Jökulsá og upp á Sólheimajökul. Þar sást greinilega mikið leysingavatn í lóninu sem streymdi upp um jökulinn en engar vísbendingar eru um gosvirkni í Kötlu.
Í tilkynningu frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sem send var út í dag kemur fram að óvissustig almannavarna þýði að aukið eftirlit sé með atburðarás sem gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Fylgst verður vel með framvindu mála.
Öllum sem þarna eiga leið um er bent á að hafa farsíma opna svo hægt sé að koma til þeirra skilaboðum ef hætta steðjar að. Ekki hefur orðið vart við jarðskjálfta sem taldir eru vera undanfari Kötlugoss. Engar sérstakar vísbendingar eru því um gosvirkni, en vel verður fylgst með á næstu dögum.
Vegna brennisteinsvetnis sem berst úr Múlakvísl er ferðafólki ráðlagt að gæta varúðar í nágrenni hennar. Fólki er ráðið frá því að stoppa við ána.