Húsbændur á Álfsstöðum II undir Vörðufelli á Skeiðum fönguðu lasburða haförn í morgun.
„Við tókum fyrst eftir erninum í gær þar sem hann var á sveimi á milli hestanna hér á næsta túni. Okkur fannst eins og hann væri eitthvað slappur og ákváðum því að leita að honum í morgun,“ sagði Sigmundur Þorsteinsson á Álfsstöðum II í samtali við sunnlenska.is.
„Við vorum ekki lengi að finna hann í morgun innan um hestana. Hann var frekar orkulaus en við settum hann í stórt hundabúr og munum flytja hann þannig í Húsdýragarðinn þar sem hann mun fá aðhlynningu,“ sagði Sigmundur ennfremur.
Haförnin er merktur, fimm ára gamall frá Breiðafirði. Tveir hafernir hafa verið í Vörðufellinu síðustu vikur og er þessi fugl líklega annar þeirra.
Haförninn var hinn rólegasti í hundabúrinu. sunnlenska.is/Guðbjörg Helga Sigurdórsdóttir