Fór í öndunarstopp eftir handtöku á Selfossi

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Aðili sem dyraverðir höfðu yfirbugað við Hvítahúsið á Selfossi aðfaranótt sunnudags vegna ölvunar og óspekta var handtekinn og færður í fangahús á Selfossi.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að vegna ástands mannsins hafi verið fylgst sérstaklega með honum og fljótlega eftir komu í fangahús kastaði hann upp og fór í framhaldi af því í öndunarstopp.

Endurlífgunaraðgerðir voru þegar hafnar af lögreglumönnum og hjúkrunarfræðingi sem var á staðnum vegna annars verkefnis og komst maðurinn fljótlega til meðvitundar á ný. Hann fluttur á sjúkrahús í Reykjavík en útskrifaður þaðan, heill heilsu, undir morgun.

Þar sem um alvarlegt atvik er að ræða er málið tilkynnt til Nefndar um eftirlit með störfum lögreglu og þess að auki óskað við ríkissaksóknara að hann, eða sá er hann felur málið, taki rannsókn þess yfir.

Dagbókarritari lögreglunnar metur það svo að lögreglumenn og nærstaddur hjúkrunarfræðingur hafi, með árvekni sinni og skjótum og fumlausum viðbrögðum, bjargað lífi mannsins.

Fyrri greinMissti meðvitund í sundlauginni á Flúðum
Næsta greinUSVS með tvö lið á Smábæjarleikunum