Starfsmönnum RARIK tókst í nótt að koma í veg fyrir rafmagnsleysi í Vík og Mýrdalnum en minnstu mátti muna að stofnstrengur RARIK undir Jökulsá á Sólheimasandi slitnaði.
Um þessar mundir er Vegagerðin að byggja nýja brú yfir Jökulsá og hefur sú framkvæmd haft í för með sér efnisflutninga í ánni. Þessir efnisflutningar og miklir vatnavextir vegna úrkomu síðustu daga virðast hafa grafið frá strengnum og ljósleiðaranum sem lokið var að leggja á síðasta ári.
Fyrr í vikunni færðist ljósleiðarinn til og slitnaði og því var mikil hætta á að stofnstrengurinn færi sömu leið. Á meðan viðgerðin var undirbúin var varaafl fyrir svæðið tryggt en færanleg vél var send til Víkur.
Í gær hófust svo framkvæmdir við að leggja nýjan strengbút og tengja við kerfið. Að sögn Þóris Tryggvasonar á rekstrarsviði RARIK á Suðurlandi unnu starfsmenn RARIK afrek í nótt við erfiðar aðstæður í beljandi rigningu. Á meðan á verkinu stóð voru keyrðar varavélar í Vík þannig að enginn varð rafmagnslaus á meðan á aðgerðum stóð. Kerfið var svo komið í eðlilegan rekstur um klukkan 7 í morgun.