Foreldrafélag Grunnskólans í Þorlákshöfn stendur fyrir opnum foreldra- og samfélagsfundi miðvikudaginn 20. október í Versölum, Ráðhúsi Ölfuss.
Fundurinn hefst kl. 18 og stendur til 20.30 og öllum viðstöddum er boðið upp á súpu. Nauðsynlegt er að skrá sig á fundinn og er hægt að gera það í gegnum tengil hér að neðan..
Ætla að koma af stað foreldrarölti
Tilgangur fundarins er að koma af stað foreldrarölti sem verður skipulagt á föstudögum og laugardögum og auka meðvitund íbúa um að þeir berum sameiginlega ábyrgð á velferð barnanna í þorpinu. Allir íbúar í Ölfusi geta tekið þátt í foreldrarölti, einu kröfurnar eru að einstaklingar hafi kærleika að leiðarljósi í samskiptum við krakkana. Ömmur og afar, frænkur, frændur og aðrir áhugasamir eru hvattir til að koma og vera með.
Tveir ólíkir og áhugaverðir fyrirlestrar
Á fundinum verður boðið upp á tvo fyrirlestra. Elís Kjartanson, lögregluþjónn ætlar að spjalla við fundargesti um það hvernig foreldrar og aðrir þeir sem sinna foreldrarölti geta brugðist við í ólíkum aðstæðum ásamt því að fræða um eitt og annað í virku spjalli við viðstadda.
Síðan mun fyrirlesarinn Aðalheiður Sigurðardóttir tala um eitt af því mikilvægasta í lífinu – að vera samþykktur eins og maður er. Fyrirlesturinn er með yfirskriftina: Hvernig get ég hjálpað barninu mínu? Aðalheiður er stofnandi verkefnis Ég er unik og hefur um árabil starfað sem fyrirlesari og tengslaráðgjafi fyrir foreldra og fagfólk, með sérstaka áherslu á einhverfuróf, ADHD og kvíða.
Sem fyrr segir ætlar foreldrafélagið að bjóða upp á súpu og því er nauðsynlegt að skrá sig á fundinn og er hægt að gera það hér.