Foreldrafélag leikskólans Heklukots á Hellu sendi sveitarstjórn Rangárþings ytra erindi þar sem fram kemur óánægja með sumarlokun leikskólans í sumar.
Á síðasta fundi sveitarstjórnar þakkaði meirihlutinn fyrir ábendingar foreldrafélagsins og segir í bókun að reynt verði eftir því sem unnt er að koma til móts við óskir sem flestra foreldra. Aldrei verði þó hægt að uppfylla ýtrustu óskir allra.
Fyrr í vor var hart deilt innan sveitarstjórnar um sumarleyfistímann í leikskólanum eftir að sveitarstjórn sniðgekk tillögu fræðslunefndar um sumarlokun leikskólanna í sveitarfélaginu.
Í nýjustu bókun sveitarstjórnar segir að stjórnendur leikskólanna muni reyna að hafa ákvarðanir um sumarlokanir þeirra tilbúnar fyrr en verið hefur á þessu ári og undangengnum árum svo foreldrar hafi lengri tíma til að undirbúa sig.
Fulltrúar Á-listans sem eru í minnihluta lögðu fram bókun þar sem segir að með bréfinu frá foreldrafélaginu sé staðfest að samráð við félagið var ekkert um lokun leikskólans og tillögur þess að engu hafðar og það sé ekki sú stjórnsýsla sem Á-listinn vilji ástunda.