Foreldrafélagið vill heyrnarhlífar fyrir yngstu börnin

Sunnulækjarskóli á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Foreldrar barna í Sunnulækjarskóla á Selfossi hafa óskað eftir því við skólayfirvöld að yngstu nemendunum í skólanum verði útvegaðar heyrnahlífar til að verjast klið sem myndast getur í vissum stofum skólans.

Greint er frá því í nýjasta fréttabréfi foreldrafélags Sunnulækjarskóla að sum börn eigi erfitt með að venjast kliðnum og því geti komið sér vel fyrir þau börn að fá afnot af slíkum heyrnarhlífum. Fordæmi séu fyrir slíku í öðrum skólum. Þetta staðfestir formaður félagsins, Rakel Þorsteinsdóttir í samtali við Sunnlenska.

„Heyrnarhlífar geta verið mikilvæg hjálpargögn fyrir börn með sérþarfir. Skynjun barna er svo mismunandi og sum þeirra eru næmari fyrir hljóðum í umhverfinu en önnur. Þau geta átt erfitt með að útiloka hljóð og missa einbeitingu,“ segir Rakel. Þannig geti sum hljóð valdið óþægindum og jafnvel sársauka.

„Við vitum að starfsfólk Sunnulækjarskóla leggur sig fram við að koma til móts við mismunandi þarfir nemendanna. Því sáum við fyrir okkur að starfsfólkið, í samvinnu við foreldra, myndu meta við hvaða aðstæður þörf væri á slíkum búnaði,“ segir Rakel ennfremur.

„Okkur hefur ekki þótt þetta aðlaðandi lausn en erum þó alltaf tilbúin til að skoða allar leiðir sem hafa gefist vel í öðrum skólum,“ segir Birgir Edwald, skólastjóri Sunnulækjarskóla þegar hann var spurður álits á hugmyndinni.

Fyrri greinBíó á Laugarvatni
Næsta greinHart barist í lokaumferðinni