Stjórn Foreldrafélags Grunnskólans í Þorlákshöfn lýsir yfir stuðningi við kennara í yfirstandandi kjaraviðræðum.
„Við teljum mikilvægt að kennarar fái sanngjörn kjör sem endurspegla það mikilvæga starf sem þeir sinna við að mennta og styðja börnin okkar í námi og þroska. Jafnframt leggjum við áherslu á að sýna kennurum virðingu og meta starf þeirra að verðleikum. Öruggt og gott starfsumhverfi fyrir kennara skilar sér beint í betri skóla og aukinni velferð nemenda,“ segir í yfirlýsingu sem foreldrafélagið sendi frá sér í dag.
„Við gerum okkur grein fyrir að kjaradeilur og verkfallsaðgerðir geta haft áhrif á skólastarf og nemendur, sérstaklega þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu. Því vonumst við til að lausn finnist sem fyrst og hvetjum alla aðila til að leggja sig fram um að ná farsælli niðurstöðu,“ segir í yfirlýsingunni þar sem foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að ræða málið af yfirvegun og virðingu.
„Við hvetjum alla til að ræða málið á uppbyggilegan hátt og forðast að tala illa um kjarabaráttuna eða kennara barnanna okkar.“
Náist ekki samningar í tíma verður tímabundið verkfall í Grunnskólanum í Þorlákshöfn frá 3. til 21. mars næstkomandi.