Elfa Dögg Þórðardóttir formaður SASS hyggst ekki gefa kost á sér til formennsku í stjórn samtakanna í framhaldi af ársþingi sambandsins sem fram fer á Hellu um næstu helgi.
Elfa hefur verið formaður sl. tvö ár. Í samtali við Sunnlenska sagðist Elfa hætta vegna anna í öðrum störfum, en hún rekur m.a. hótel í Hveragerði auk þess að vera bæjarfulltrúi í Árborg. „Þar að auki tel ég ágætt fyrir samtökin að fleirum gefist kostur á að sinna þar ábyrgðarstöðum. Þetta er mikil vinna fyrir þann sem tekur þetta að sér en að sama skapi skemmtileg,“ segir Elfa.
Bæjarfulltrúar í Vestmannaeyjum hafa leitað eftir því í samtölum við kollega sína á fastalandinu að næsti formaður samtakanna verði úr þeirra röðum og er nafn Gunnlaugs Grettissonar forseta bæjarstjórnar Vestmannaeyja nefnt í því sambandi.
„Okkur finnst tími á að skoða þann flöt á málinu,“ segir Elliði Vignisson í samtali við Sunnlenska.