Í dag, 15. nóvember, er árlegur alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa. Minningarstund var í kvöld á nýja Suðurlandsveginum undir Ingólfsfjalli.
Viðbragðsaðilar í Árnessýslu mættu til minningarstundarinnar, kveikt var á kertum, Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra flutti ávarp og síðan var mínútu þögn undir bláum ljósum til þess að minnast þeirra sem látist hafa í umferðarslysum.
„Hér á bakvið mig stendur hópur öflugs fólks sem vinnur sem ein liðsheild, hvaðan sem þau koma, og við í samfélaginu stöndum í mikilli þakkarskuld við allt þetta fólk og heilbrigðisstarfsmenn að auki sem ekki eru hér í dag. Við, sem erum allt of mörg, sem þekkjum það að hafa misst ástvini þökkum þeim af hlýhug, minnumst ástvina okkar og hugsum líka fallega til þeirra sem sannarlega leggja sjálfa sig að húfi í að bjarga okkur hinum. Kærar þakkir,“ sagði Sigurður Ingi í ávarpi sínu.
Frá því að fyrsta banaslysið var skráð hér á landi 25. ágúst 1915 hafa 1.585 manns látist í umferðinni á Íslandi. Enn fleiri slasast alvarlega, takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum.
Að baki undirbúningi dagsins hér á landi standa Landsbjörg, Samgöngustofa og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti auk fjölda sjálfboðaliða.
Hér fyrir neðan er drónamyndband frá minningarstundinni frá Björgunarsveitinni Björg á Eyrarbakka.
Einkennislag dagsins er lag KK, When I Think of Angels, í flutningi hans og Ellenar Kristjánsdóttur sem samið var til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992.