Forsætisráðherra tók á móti kanslara Þýskalands á Þingvöllum

Kanslarinn og forsætisráðherrann á Þingvöllum í kvöld. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók á móti Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, við Hakið á Þingvöllum í kvöld og gengu þær saman niður Almannagjá að ráðherrabústaðnum.

Að lokinni göngunni fluttu forsætisráðherra og kanslari Þýskalands ávörp á blaðamannafundi í ráðherrabústaðnum. Þær ræddu meðal annars um loftslagsmál, stöðu stjórnmálanna í Evrópu, þróun efnahagsmála og jafnréttismál.

„Víða um Evrópu hefur vegur þjóðernissinnaðra og popúlískra afla aukist og hafa Norðurlöndin ekki farið varhluta af þeirri þróun. Það er mikilvægt að stjórnmálin og stjórnmálamenn – hvar í flokki sem þeir standa – ræði þessa þróun og afleiðingar hennar fyrir samfélagið, lýðræðið, mannréttindi og réttindi kvenna og minnihlutahópa. Áhersla Norðurlandanna á velferð, almenna menntun og jöfnuð er afar mikilvæg til að styrkja samfélagið og standa vörð um hið lýðræðislega opna samfélag,“ sagði Katrín.

Angela Merkel er hér á landi í boði forsætisráðherra og verður sérstakur gestur á árlegum sumarfundi forsætisráðherra Norðurlandanna sem hefst á morgun.

Fyrri greinHSK styrkir bikarmeistarana
Næsta greinSelfoss stakk af í seinni hálfleik