27. Landsmót UMFÍ var sett á Selfossi í kvöld. Mótssetningin tókst vel en hún var flutt inn í íþróttahús Vallaskóla vegna veðurs. Reyndar stytti upp og sást til sólar á Selfossi rétt um það leyti sem athöfnin var að hefjast.
Formaður UMFÍ, Helga Guðrún Guðjónsdóttir, setti mótið en auk hennar flutti forseti Íslands ávarp, sem og Illugi Gunnarson, mennta- og menningamálaráðherra og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, fulltrúi íþróttamannanna á mótinu.
Hr. Ólafur Ragnar Grímsson sló á létta strengi í ávarpi sínu en hann sagði að þetta væri eina samkoman þar sem forsetinn væri ávíttur um leið og hann gengi í hús. Ólafur sagði frá því að Hafsteinn Þorvaldsson, heiðursfélagi UMFÍ, hafi skammað sig fyrir að mæta ekki á keppni í pönnukökubakstri á Landsmóti 50+ í Vík í sumar. Ólafur lofaði því að keppa með Hafsteini í pönnukökubakstri á næsta móti og ætlaði strax að byrja að æfa sig.
Fjölmörg tónlistaratriði voru flutt við setninguna þar sem Pamela De Sensi lék m.a. á þverflautu og Daníel Haukur Arnarson söng Ísland er land þitt um leið og hvítbláinn var dreginn að húni.
Aðalfánaberi var Haraldur Einarsson, spretthlaupari og alþingismaður, en ungir íþróttamenn úr HSK báru inn skilti í salinn með nöfnum sambandanna sem taka þátt í mótinu.
Vésteinn Hafsteinsson bar svo landsmótseldinn í kyndli inn í húsið og í kjölfarið var eldurinn fluttur út á íþróttavallarsvæðið þar sem Vésteinn tendraði eld sem loga mun fram að mótsslitum á sunnudaginn.