Skátafélagið Fossbúar á Selfossi fagnar því þessa dagana að hafa fengið nýtt húsnæði afhent fyrir starfsemi félagsins.
Það er í Glaðheimum á Tryggvagötu 36 þar sem áður var leikskóli og síðar starfsemi háskólafélagsins meðal annars. Auður Lilja Arnþórsdóttir, félagsforingi í Fossbúum segir skátana mjög þakkláta bæjaryfirvöldum í Árborg fyrir að hafa svo ríkan skilning á þörfinni sem er til staðar fyrir svona tómstundastarfi fyrir krakka.
„Húsnæðið er prýðilegt, mjög hentugt og lóðin veitir spennandi möguleika,“ segir Auður Lilja, sem sjálf hefur starfað í skátahreyfingunni frá því hún var krakki eins og hún orðar það. „Við sjáum fyrir okkur að geta æft okkur í að tjalda þarna næsta sumar og jafnvel reisa trönur,“ segir Auður.
Vaxandi starfsemiAuður Lilja segir starfið í Fossbúum hafi verið í blóma að undanförnu og á nýja aðstaðan án efa eftir að efla starfið enn frekar að hennar mati. Hátt í 90 börn og ungmenni eru nú virk í starfi Fossbúa.
Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu