Hvergerðingar opnuðu nýja aðstöðu til vatns- og leirfótabaða í Hveragarðinum í gær. Þar má líka sjóða egg og baka brauð.
Komið hefur verið upp aðstöðu til bæði vatns- og leir fótabaða þar sem gestum garðsins gefst kostur á að upplifa þessa einstöku náttúruauðlind á eigin líkama. Auk þess geta gestir fylgst með brauðbakstri á svæðinu, soðið egg og gætt sér á gúrkusnafsi. Íslenskar landnámshænur hafa einnig tekið sér þar bólfestu, ungum gestum til mikillar ánægju.
“Með þessum breytingum hafa Hvergerðingar tekið stórt skref til tengingar við þá notkun sem tíðkaðist á svæðinu í árdaga byggðar en þá sótti fólk heilsubót með því að liggja í leirböðum utandyra á hverasvæðinu, húsmæður suðu mat í hverunum og mættu þar reglulega til stórþvotta,” segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri.
“Staðsetning svæðisins í miðbæ Hveragerðis gerir það einstakt á heimsmælikvarða. Hvergi er nálægð byggðar jafn mikil við virkt háhitasvæði og tækifærið sem gestum gefst til að verða vitni að fjölbreyttri nýtingu háhitans einstakt hvort sem horft er til erlendra eða innlendra gesta,” segir Aldís.