Rekstur og fasteignir Hótels Lunda og Hostel Puffin í Vík í Mýrdal hafa verið seldar til fjárfestingahóps sem Viðar Halldórsson, formaður íþróttafélagsins FH, fer fyrir.
Undanfarin ár hefur Hótel Lundi verið stækkað verulega og þar eru nú herbergi fyrir 46 gesti. Á Hostel Puffin eru síðan 22 rúm en hótelin hafa verið rekin saman.
Seljendur eru Guðmundur Jón Viðarsson bóndi í Skálakoti og Halldór Gunnarsson í Holti. Að sögn Guðmundar keyptu þeir reksturinn fyrir sex árum síðan og töldu tímabært að selja núna enda reksturinn orðið æði umfangsmikill. Þá hefur Guðmundur verið að byggja upp ferðaþjónustu og hótelaðstöðu í Skálakoti en þar er nú að rísa 15 herbergja hótel.
Viðar Halldórsson hefur rekið fasteignafélag í Hafnarfirði í samstarfi við syni sína, Arnar Þór, Davíð Þór og Bjarna Þór sem eru þekktir knattspyrnumenn. Að sögn Viðars eru þeir ekki tengdir kaupunum en þau eru gerð í nafni óstofnaðs félags. Samkvæmt Viðari hefur hópurinn sem stendur að kaupunum ekki áður komið að hótelrekstri.