Sex ára rússnenskur drengur brenndist annars stigs bruna á fæti þegar hann steig í holu með heitu vatni við íbúðarhús í Hveragerði í gærmorgun.
Fóturinn var kældur meðan beðið var eftir sjúkrabifreið sem flutti drenginn á slysadeild Landspítala.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.
Eftir hádegi í gær voru lögreglumenn í hálendiseftirliti kallaðir til vegna franskrar konu sem fótbrotnaði á göngu í úfnu hrauni um tvo kílómetra sunnan við Landmannalaugar. Ékki þótti ráðlegt að bera konuna og því var þyrla Landhelgisgæslunnar fengin til að sækja konuna og flytja hana á slysadeild Landspítalans.
Í dagbókinni kemur einnig fram að um svipað leyti var óskað aðstoðar vegna hlaupakonu í Laugavegshlaupinu sem datt og handleggsbrotnaði. Björgjunarsveitar fólk á hálendisvaktinni fluttu konuna á heilsugæsluna á Selfossi.