„Við sóttum um tvo ferðastyrki í flokknum „Námi og þjálfun“ í Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins og er ánægjulegt að segja frá því að báðar umsóknir voru samþykktar.“
Þetta segir Steinunn Óskarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Fræðsluneti Suðurlands, um Erasmus styrki sem Fræðslunetinu hafa borist.
Annars vegar er um að ræða styrk til að þróa framhaldsnám fyrir hestamenn í tamningum, járningum og hófhirðu. Styrkurinn er til eins árs og er fyrir fimm ferðum til Norðurlandanna þar sem markmiðið er að kynna sér sambærilegt nám og að mynda tengslanet sem nýst getur við frekari þróun námsins.
Hins vegar var sótt um styrk til að efla færni starfsfólks og leiðbeinenda Fræðslunetsins í vendikennslu en verkefnið heitir Flipped classroom in the livelong learning. Þar fengust fjórir ferðstyrkir og er markmiðið að sækja námskeið í hugmyndafræði og aðferðum vendikennslunnar að sögn Steinunnar.
Erasmus+ áætluninni var komið á fót þann 1. janúar 2014 og stendur yfir í sjö ár eða til ársins 2020. Á því tímabili renna tæplega 15 milljarðar evra til fjölbreyttra verkefna sem eiga að efla menntun, þjálfun, æskulýðsstarf og íþróttaiðkun almennings í Evrópu.